Reglur > Keppnisgreinarreglur fyrir torfæru 2023

Útgáfudagur 29.12.2022
Bera saman við aðra útgáfu
GREIN 1 ALMENNT

Torfæra (Formula Offroad) er keppni fjórhjóladrifsbíla þar sem ökumenn reyna með sér í nákvæmnisakstri við krefjandi aðstæður, m.a. upp brattar brekkur, aka á vatni, í drullu og við aðrar óvenjulegar aðstæður.

GREIN 1.1 GILDISSVIÐ
1.1.1

Reglur þessar gilda fyrir allar keppnir í torfæru.

1.1.1.a

Keppnishaldara er heimilt að víkja frá keppnisfyrirkomulagi og keppnisflokkareglum í keppnum öðrum en Íslandsmeistarakeppnum.

1.1.2

Keppnir eru haldnar samkvæmt Reglubók FIA (e. International Sporting Code (ISC)), þessum keppnisgreinarreglum og sérreglum hverrar keppni.

1.1.3

Gæti misræmis á þessum keppnisgreinarreglum og Reglubók FIA þá gilda reglur FIA.

GREIN 2 SKRÁNING
GREIN 2.1 KEPPENDUR OG ÖKUMENN
2.1.1

Keppendum er heimilt að skrá sig mörgum sinnum í hvern flokk í hverri keppni.

2.1.1.a

Hver ökumaður má aðeins aka einu ökutæki í hverjum flokki.

2.1.2

Hverju ökutæki skal aðeins ekið af einum ökumanni í hverri keppni.

2.1.2.a

Keppnishaldara er heimilt að leyfa tvo ökumenn á ökutæki og skal þá taka það fram í sérreglum.

GREIN 2.2 ÖKUTÆKI
2.2.1

Ekki er heimilt að skipta út ökutæki í keppni eftir að skoðun lýkur.

GREIN 2.3 KEPPNISNÚMER
2.3.1

Ökutæki skal merkt með keppnisnúmeri.

2.3.2

Föst rásnúmer eru notuð eftir flokkum. Frátekin eru 1, 2, 3 í sérútbúnum flokki, 201, 202, 203 í sérútbúnum götubílaflokki og 401, 402 og 403 í götubílaflokki samkvæmt lokastöðu Íslandsmóts.

2.3.2.a.i

Rétt til keppnisnúmers samkvæmt úrslitum Íslandsmóts næsta árs á undan öðlast 3 efstu ökumenn þess móts. Aðrir ökumenn fá úthlutað keppnisnúmerum frá 4 til og með 199 í sérútbúnum flokki, 204-399 í sérútbúnum götubílaflokki og 404-499 í götubílaflokki.

2.3.2.b

Ökumanni er heimilt að sækja um sérvalið keppnisnúmer.

2.3.2.b.i

Skal slík umsókn sendast til keppnisráðs í torfæru.

2.3.2.b.ii

Ökumaður skal hafa forgang á notkun úthlutaðs sérvalins keppnisnúmers í a.m.k. tvö keppnistímabil.

2.3.2.c

Keppnisráð skal, í samvinnu við AKÍS, halda skrá um úthlutuð keppnisnúmer á hverju ári.

GREIN 3 KEPPNI
GREIN 3.1 ALMENNT
3.1.1

Á meðan á keppni stendur má einungis ökumaður vera í ökutækinu með þeim undantekningum þó að:

3.1.1.a

liðsstjóra er heimilt að færa ökutækið úr stað og gera á því prófanir;

3.1.2

Þegar ræst er á ferð er það framkvæmt án fylgdarbíls.

3.1.3

Keppandi, ökumaður eða liðstjóri skal alltaf vera við ökutæki meðan keppni fer fram.

3.1.4

Keppandi má hafa átta aðstoðarmenn inni á pittsvæði og ber á þeim fulla ábyrgð.

3.1.4.a

Keppnishaldara er heimilt að leyfa fleiri aðstoðarmenn á þeim forsendum sem hann ákveður.

3.1.5

Ökutæki skal aldrei ekið hraðar en á gönguhraða á fráteknum svæðum utan þrauta og reynsluaksturssvæðis.

3.1.6

Staðreyndadómarar skulu vera að lágmarki þrír og ekki allir frá sama félagi, þeir skulu hafa lokið námskeiði hjá Akstursíþróttasambandi Íslands (AKÍS).

GREIN 3.2 ÞRAUTIR
3.2.1

Lágmarksfjöldi þrauta í keppni eru 6.

3.2.1.a

Ein eða fleiri þrautir mega vera tímaþrautir.

3.2.2

Hver þraut skal vera 30 til 700 metra löng.

3.2.3

Hver þraut skal hafa lágmark eitt aksturssvæði sem afmarkast af tveimur hliðum, ráslínu og marklínu.

3.2.3.a

Hlið afmarkar þrautina inn í aksturssvæði.

3.2.3.b

Hliðin afmarka hvert akstursvæði.

3.2.3.c

Lágmarksfjöldi hliða í þrauti eru 4.

3.2.4

Öll hlið skulu vera að minnsta kosti 4 metra breið.

3.2.5

Það eru til tvær tegundir af hliðum:

3.2.5.a

A hlið - sé framhjól við það að fara út úr þraut, en snertir samt hlið, skal ökumaður fá hámarksrefsingu;

3.2.5.b

B hlið - skulu vera bæði framhjól inni í hliði, annað þarf að vera hreint og hitt má snerta hlið.

3.2.6

Þrautir skulu vera skýrt merktar með þrautarhliðum sem mega vera annað hvort:

3.2.6.a

hvít eða gul vinstra megin;

3.2.6.b

svört eða rauð hægra megin.

3.2.7

Ef allir flokkar keyra sömu þraut eða hluta af þraut skal nota annan hvorn litinn af hliðum.

3.2.8

Stikur skulu vera að minnsta kosti 40 cm á hæð og 10 cm breiðar.

3.2.9

Stikum í þrautarhliðum skal vera þannig komið fyrir að þær geti ekki skapað hættu fyrir keppendur, starfsmenn eða áhorfendur.

3.2.9.a

Liggi tvær eða fleiri þrautir nálægt hvor annarri skal sú þraut sem er í notkun vera merkt sérstaklega til að fyrirbyggja misskilning.

3.2.10

Keppnisstjórn skal afhenda ökumönnum mynd eða teikningu af þrautum á keppendafundi.

3.2.10.a

Hún skal sýna akstursstefnu þrauta og skulu hlið þeirra vera skilmerkilega merkt ásamt stigasvæðum og 350 stiga viðmiðunarlínu.

3.2.11

Keppnishaldari getur notað borða eða stikur til að afmarka þrautir. Slík afmörkun þarf að koma fram á teikningu þrautarinnar og skal við það miðað að hún sé ekki nær hliði en 2 metra, talið þvert á akstursstefnu.

GREIN 3.3 PITTURINN
3.3.1

Afmarka skal svæði fyrir pitt þar sem ökutæki skulu vera þegar unnið er við þau.

3.3.2

Pittsvæðið skal vera vel merkt og staðsett þannig að frá því sé auðvelt að komast að og frá þrautum.

3.3.3

Pittur skal vera það stór að þar sé pláss fyrir öll ökutæki, alla keppendur, ökumenn, þjónustuliða, þrautarstarfsmenn, gesti o.s.frv.

3.3.3.a

Þegar aðstæður krefjast þess er keppnishaldara heimilt að skipta pittsvæðinu upp og skal þess þá getið í sérreglum.

3.3.4

Innan pittsins skal afmarka einn reit fyrir hvert ökutæki og þjónustulið þess sem það hefur til afnota.

3.3.4.a

Ökumaður skal aka beint í og úr sínu afmarkaða svæði í pittinum og forðast að koma í svæði annarra ökutækja en síns eigin.

3.3.5

Spól er stranglega bannað á pittsvæði.

3.3.7

Á pittsvæði skal aka með fyllstu gát.

3.3.8

Á pittsvæði skulu staðsett að minnsta kosti tvö slökkvitæki með froðu, að lágmarki 6 kg og skal aðgengi að þeim óhindrað og staðsetning þeirra vel merkt.

3.3.9

Öll ökutæki skulu hafa dúk undir sér meðan á viðgerð stendur.

3.3.9.a

Hann þarf að vera að minnsta kosti 520 g/m2 að þykkt og skal ná yfir allt svæði ökutækisins.

3.3.10

Keppendur skulu hafa slökkvitæki á pittsvæði sínu að lágmarki 2 kg.

GREIN 3.4 REYNSLUAKSTURSSVÆÐI
3.4.1

Á keppnisstað skal vera reynsluaksturssvæði sem er að lágmarki 25 metra langt.

3.4.2

Ökutæki má ekki aka á reynsluaksturssvæði fyrr en að lokinni skoðun þess.

3.4.3

Ökumenn eða liðsstjórar geta einungis prófað ökutæki á reynsluaksturssvæði.

3.4.4

Á reynsluaksturssvæðinu skal vera einstefna.

3.4.5

Reynsluaksturssvæði opnar í síðasta lagi einni klukkustund fyrir ræsingu fyrsta keppanda í fyrstu þraut og lokar þegar síðasta ökutæki hefur ekið síðustu þraut keppninnar.

GREIN 3.5 SKOÐUN
3.5.1

Keppandi skal tryggja að hann eða fulltrúi hans sé við ökutæki meðan skoðun fer fram.

3.5.2

Öll ökutæki skulu standast skoðun til að fá rásleyfi.

3.5.3

Skylt er að prófa bremsur ökutækis. Öll hjól skulu læsast.

3.5.3.a

Keppandi skal sýna fram á að ökutækið standist enn þetta próf áður en það leggur í þraut.

GREIN 4 KEPPNISFYRIRKOMULAG
GREIN 4.1 RÁSRÖÐ
4.1.1

Keppnishaldari dregur í rásröð og skal birta hana á upplýsingatöflu keppninnar, eigi síðar en á keppendafundi. Ekki skal draga í rásröð fyrr en brautir hafa verið lagðar.

4.1.2

Eftir hverja þraut skulu fyrstu ökumenn færðir afturfyrir í rásröð.

4.1.2.a

Fjöldi ökumanna sem færður er afturfyrir í hvert skipti skal reiknaður með fjölda keppenda deilt með fjölda þrauta.

4.1.2.b

Þegar fjöldi ökumanna er færri en fjöldi þrauta skal aðeins einn ökumaður færast afturfyrir í rásröð.

4.1.3

Ökumaður skal mæta á ráslínu innan einnar mínútu eftir að honum hefur verið gefið merki um að mæta.

4.1.3.a

Hverri tilraun til aksturs í þraut telst lokið fari ökumaðurekki af stað innan einnar mínútu frá rásmerki.

4.1.3.b

Keppnishaldara er heimilt að leyfa ökumönnum að færast aftast í rásröð þrautar sé ökutæki þeirra í viðgerð þegar kemur að ræsingu þeirra.

4.1.3.b.i

Á keppendafundi skal tilkynna keppendum hvort þessi heimild gildi eða ekki í keppninni.

4.1.3.b.ii

Ökumaður eða liðsstjóri skulu tilkynna keppnisstjóra fyrir ræsingu hyggist þeir nýta sér heimildina.

4.1.3.b.iii

Hverjum ökumanni er aðeins heimilt að nýta sér þetta einu sinni í hverri keppni.

4.1.3.b.iv

Sé beðið um að fara afturfyrir en það ekki nýtt telst þetta eina tækifæri samt fullnýtt.

4.1.3.b.v

Ökumaður fær aðeins 50% af stigum sem hann vinnur sér inn í þraut sem þessi heimild er nýtt fyrir.

4.1.4

Aki ökumaður ekki strax af stað þegar hann hefur verið ræstur fyrirgerir hann rétti sínum til að aka þrautina og fær engin stig fyrir hana.

4.1.5

Keppendur sem hætta keppni skulu umsvifalaust tilkynna það til keppnisstjórnar.

4.1.6

ökumaður flaggaður út fyrir mistök hefur ökumaður rétt á að vera ræstur aftur í viðkomandi þraut. Ökumaður fer ekki afturfyrir og á ekki rétt á að fara í pitt áður en hann er ræstur aftur

GREIN 4.2 STIGASVÆÐI OG STIG
4.2.1

Hverri þraut er skipt niður í 5 stigasvæði sem markast af hliðum:

4.2.1.a

0 til 100 stig;

4.2.1.b

100 til 200 stig;

4.2.1.c

200 til 250 stig;

4.2.1.d

250 til 300 stig;

4.2.1.e

300 til 350 stig.

4.2.2

250 stiga viðmiðunarlína skal vera merkt að hámarki 3 metrum fyrir marklínu (300).

4.2.3

350 stiga viðmiðunarlína skal vera bíllengd framyfir marklínu.

4.2.4

Dómarar geta ákveðið að gefa stig með 10 stiga millibili í fyrstu þremur stigasvæðum, en seinni svæðum er ekki skipt upp. Dæmi: ökumaður getur fengið 240 stig en ekki 260 stig fyrir lengd.

4.2.4.a

Til að gefa 250 stig verður að minnsta kosti eitt framhjól að vera inni í marklínu (300 stiga hliði).

4.2.5

Fyrir refsilausan akstur í þraut eru gefin 350 stig.

4.2.5.a

Að auki geta fengist aukastig kveði sérreglur á um slíkt.

4.2.6

Hverju stigasvæði telst lokið þegar miðjur beggja afturhjóla hafa farið yfir viðmiðunarlínu.

4.2.7

Aka verður í gegnum öll hlið í réttri akstursstefnu.

4.2.7.a

Aðeins má aka einu sinni í gegnum hvert hlið.

4.2.8

Ökumanni er einungis heimilt að bakka einu sinni í hverju stigasvæði á milli hliða (sjá reglu 3.2.3.b).

GREIN 4.3 STIGAREFSINGAR
4.3.1

Stoppað í þraut og haldið áfram -10 stig.

4.3.1.a

Ekki er dæmd refsing ef stöðvað er í 2 sekúndur eða skemur.

4.3.2

Þrautarhlið snert með einu dekki -20 stig.

4.3.3

Þrautarhlið snert með tveimur dekkjum -40 stig.

4.3.4

Þrautarhlið snert með þremur dekkjum -80 stig.

4.3.5

Bakkað (gildir þegar keppandi heldur akstri áfram) -40 stig.

4.3.6

Eyðilegging á þraut að óþörfu -50 stig.

4.3.7

Hámarksrefsing fyrir eitt hlið er -80 stig.

4.3.8

Refsing í 300 stiga hliði er 50% minni en venjuleg refsing.

4.3.9

Fari ökutæki ekki í gegnum neitt þrautarhlið þá fæst hvorki stig né refsing.

4.3.10

Lágmarks stig fyrir hverja þraut er 0 stig.

GREIN 4.4 AUKASTIG FYRIR ÞRAUT
4.4.1

Í sérreglum keppni er heimilt að skilgreina eina þraut, en þó ekki tímaþraut, sem gefur aukastig.

4.4.2

Í þraut með aukastigum er mældur tími frá ráslínu að marklínu.

4.4.2.a

Besti tími gefur 50 stig, annar besti tími 25 stig, þriðji besti tími 10 stig. Aðrir fá ekki stig.

4.4.3

Tíminn er mældur eins og í tímaþraut en ræst er úr kyrrstöðu.

4.4.4

Tímataka hefst um leið og rásmerki er gefið.

GREIN 4.5 TÍMAÞRAUT
4.5.1

Tímaþraut ætti að vera fær öllum ökutækjum; að því tilskyldu að þau séu í lagi.

4.5.2

Þrautarhlið í tímaþraut skulu vera númeruð og vel sjáanleg.

4.5.3

Tímamæling í tímaþraut:

4.5.3.a

hefst þegar ökutæki fer yfir ráslínu (ræsing á ferð);

4.5.3.b

lýkur þegar ökutæki fer yfir marklínu.

4.5.4

Notast skal við sjálfvirkan tímatökubúnað við tímamælingu.

4.5.4.a

Sé því ekki komið við skal nota þrjár skeiðklukkur og skal miðtími þeirra notaður.

4.5.4.b

Sé því heldur ekki komið við skal nota tvær skeiðklukkur og nota meðaltalstíma þeirra.

4.5.5

Ökumaður sem nær bestum tíma í tímaþraut fær 350 stig.

4.5.5.a

Stig annara ökumanna reiknast frá besta tíma en dregið er frá 1 stig fyrir hvern tíunda hluta sekúndu lakari tíma.

4.5.6

Lágmarksstig fyrir að ljúka tímaþraut eru 150 stig.

4.5.7

Tímaþraut er skipt niður í fjögur stigasvæði.

4.5.7.a

Nái ökumaður ekki að ljúka tímaþraut fær hann 25 stig fyrir hvert stigasvæði sem hann byrjar á.

4.5.8

Hámarkstími í tímaþraut er 3 mínútur.

4.5.8.a

Nái ökumaður ekki að ljúka tímaþraut innan hámarkstíma fær hann 25 stig fyrir hvert stigasvæði sem hann byrjar á.

4.5.9

Aka skal í gegnum öll þrautarhlið tímaþrautar í réttri röð og akstursstefnu.

4.5.10

Refsing fyrir hvert snert þrautarhlið í tímaþraut er 10 stig.

4.5.11

Að lágmarki eitt hjól ökutækis þarf að fara í gegnum hvert þrautarhlið svo því teljist lokið.

4.5.12

Ökumaður má bakka og snúa við án refsingar.

GREIN 4.6 STIGAGJÖF
4.6.1

Staðreyndadómarar hætta að gefa stig þegar:

4.6.1.a

ökumaður fer af stað í þraut áður en rásmerki hefur verið gefið (þjófstart);

4.6.1.b

veltibúr snertir jörð;

4.6.1.c

ökumaður fer rangt í þrautarhlið;

4.6.1.d

ökumaður fer rangt í B hlið (Sjá reglu 3.2.5.b.);

4.6.1.e

ökumaður bakkar oftar en einu sinni innan akstursvæðis;

4.6.1.f

ökumaður bakkar lengra en bíllengd;

4.6.1.g

ökumaður fylgir ekki réttri akstursstefnu;

4.6.1.h

ökumaður festir ökutæki eða stöðvar í meira en eina mínútu;

4.6.1.i

ökumaður losar hjálm eða öryggisbelti;

4.6.1.j

ökumaður gefur merki um að hann sé hættur.

GREIN 4.7 ÚRSLIT KEPPNI
4.7.1

Sigurvegari í hverjum flokki er sá sem hefur flest stig að loknum öllum þrautum.

4.7.2

Úrslit hverrar þrautar skulu vera aðgengileg að henni lokinni á upplýsingatöflu keppninnar.

4.7.3

Ljúki tveir eða fleiri ökumenn keppni jafnir að stigum vinnur sá sem unnið hefur hinn í fleiri þrautum í keppninni.

4.7.3.a

Sé enn jafnt vinnur sá ökumaður sem fékk flest stig í síðustu þraut.

4.7.3.b

Sé enn jafnt vinnur sá ökumaður sem fékk flest stig í næstsíðustu þraut og svo framvegis.

GREIN 4.8 STIG TIL ÍSLANDSMEISTARA
4.8.1

ökumaður sem hlotið hefur flest stig samanlagt úr öllum keppnum til Íslandsmeistara telst Íslandsmeistari.

4.8.2

Stig til Íslandsmeistara eru gefin fyrir sæti í lokaúrslitum samkvæmt eftirfarandi töflu:

  1. sæti : 20 stig
  2. sæti : 17 stig
  3. sæti : 15 stig
  4. sæti : 12 stig
  5. sæti : 10 stig
  6. sæti : 8 stig
  7. sæti : 6 stig
  8. sæti : 4 stig
  9. sæti : 2 stig
  10. sæti : 1 stig
4.8.3

Ef tveir eða fleiri ökumenn eru með jafnmörg stig í efsta sæti í lok keppnistímabilsins skal sá teljast Íslandsmeistari sem var ofar í þeirra síðustu innbyrðis keppni.

GREIN 4.9 VERÐLAUN
4.9.1

Veita skal verðlaun fyrir að lágmarki þrjú fyrstu sæti í lokaúrslitum keppninnar.

GREIN 5 ÖRYGGISMÁL
GREIN 5.1 PERSÓNULEGUR BÚNAÐUR ÖKUMANNA
5.1.1

Um útbúnað og öryggismál ökumanna gilda reglurnar Torfærureglur - Tæknilegar reglur og Torfærureglur Götubílar - Tæknilegar reglur.

GREIN 5.2 ÞRAUTAVERÐIR
5.2.1

Þrautaverðir skulu staðsettir við ráslínu og marklínu.

5.2.2

Þrautaverðir við ráslínu og marklínu skulu hafa hjá sér:

5.2.2.a

duftslökkvitæki, lágmark 6 kg.

5.2.3

Þrautarvörður við ráslínu skal hafa hjá sér:

5.2.3.a

kolsýruslökkvitæki.

5.2.4

Þrautaverðir skulu hafa aðgang að öflugum klippum og hníf til að skera á belti.

GREIN 5.3 ÖRYGGISBÚNAÐUR VIÐ ÞRAUTINA
5.3.1

Að minnsta kosti ein sjúkra-/björgunarbifreið ásamt áhöfn skal vera viðstödd alla keppnina.

5.3.2

Að minnsta kosti tvö mönnuð tæki með búnaði til hífa og lyfta ökutæki skulu vera til staðar og tiltæk alla keppnina.

5.3.3

Gæta skal vel að því að fjarlægð áhorfenda frá þrautum sé nægileg til að þeim stafi engin hætta af akstri ökutækja.

5.3.4

Marklína tímaþrautar skal aldrei vera í stefnu að áhorfendum.

GREIN 5.4 FLÖGG OG MERKJAGJÖF
5.4.1

Notast skal við þrjár gerðir af flöggum fyrir merkjagjöf til ökumanna: rautt, grænt og rásflagg.

5.4.2

Rautt flagg er notað til að sýna að þraut sé lokuð og til þess að sýna ökumanni að hann sé flaggaður út úr þraut.

5.4.2.a

Rautt flagg skal einnig notað til þess að sýna ökumanni ef hætta er á ferð.

5.4.3

Grænt flagg er notað til að sýna að þraut sé tilbúin til aksturs og er sett niður um leið og ökutæki leggur af stað í þraut.

5.4.4

Rásflagg er notað til þess að ræsa ökutæki af stað í hverja þraut.

5.4.4.a

Einnig er heimilt að nota ljósbúnað til þess að ræsa í þraut.

GREIN 6 KEPPNISFLOKKAR
GREIN 6.1 REGLUR SEM GILDA FYRIR ALLA FLOKKA
6.1.1

Keppnisstjórn er heimilt að færa ökumenn um flokk fram að ræsingu fyrstu ferðar.

GREIN 6.2 SÉRÚTBÚNIR BÍLAR
6.2.1

Sérútbúnir bílar

6.2.2

Um útbúnað, flokkun og öryggismál ökutækja og ökumanna gilda reglurnar Torfærureglur - Tæknilegar reglur.

GREIN 6.3 SÉRÚTBÚNIR GÖTUBÍLAR
6.3.1

Sérútbúnir götubílar

6.3.2

Um útbúnað, flokkun og öryggismál ökutækja og ökumanna gilda reglurnar Torfærureglur - Tæknilegar reglur.

GREIN 6.4 GÖTUBÍLAR
6.4.1

Götubílar.

6.4.2

Um útbúnað, flokkun og öryggismál ökutækja og ökumanna gilda reglurnar Torfærureglur Götubílar - Tæknilegar reglur.

GREIN 7 MERKINGAR
GREIN 7.1 KEPPNISNÚMER
7.1.1

Keppnisnúmer ökutækis skulu vera:

7.1.1.a

svartir stafir á hvítum bakgrunni fyrir sérútbúna bíla;

7.1.1.b

svartir stafir á gulum bakgrunni fyrir sérútbúna götubíla;

7.1.1.c

svartir stafir á appelsínugulum bakgrunni fyrir götubíla:

7.1.1.d

35 cm á hæð og 25 cm á breidd fyrir alla flokka.

7.1.2

Keppandi skal merkja ökutæki með vel sýnilegu keppnisnúmeri á báðum hliðum þess fyrir skoðun.

GREIN 7.2 AÐRAR MERKINGAR
7.2.1

Keppnishaldara er heimilt að selja auglýsingar á ökutæki og skal hún komast fyrir á rásnúmeri sbr. gr. 7.1.1.d.

7.2.1.a

Hyggist hann nýta sér heimildina skal þess getið í sérreglum.

7.2.1.b

Keppnishaldara er heimilt að sleppa keppanda við að merkja ökutæki með auglýsingu hans gegn greiðslu gjalds sem keppnishaldari ákveður og skal þá vera auglýst í sérreglum.

7.2.1.b.i

Slíkt gjald má að hámarki vera kr. 20.000 fyrir hvert ökutæki.