Reglur > Keppnisgreinarreglur fyrir gokart 2024

Útgáfudagur 30.12.2023
Bera saman við aðra útgáfu
GREIN 1 ALMENNT
GREIN 1.1 GILDISSVIÐ
1.1.1

Reglur þessar gilda fyrir allar keppnir í gokart.

1.1.1.a

Keppnishaldara er heimilt að víkja frá keppnisfyrirkomulagi og flokkareglum í keppnum öðrum en Íslandsmeistarakeppnum.

1.1.2

Keppnir eru haldnar samkvæmt Reglubók FIA (e. International Sporting Code (ISC)), keppnisreglum FIA, þessum keppnisgreinareglum og sérreglum hverrar keppni.

1.1.3

Gæti misræmis á þessum keppnisgreinareglum og keppnisreglum- eða Reglubók FIA þá gilda reglur FIA.

GREIN 2 SKRÁNING
GREIN 2.1 KEPPENDUR OG ÖKUMENN
2.1.1

Keppendum er heimilt að skrá sig mörgum sinnum í hvern flokk í hverri keppni.

2.1.2

Ekki er heimilt að tveir eða fleiri ökumenn keppi á sama ökutæki í hverri keppni.

2.1.2.a

Hver ökumaður má aðeins aka einu ökutæki í hverjum flokki.

2.1.3

Ökumaður skal hafa mætt á að lágmarki 1 æfingu á þeirri braut sem keppnin fer fram á. Keppnisstjóra er heimilt að falla frá þessari reglu.

2.1.4

Í unglingaflokkum skal ökumaður hafa náð 10 ára aldri til að keppa.

2.1.4.a

Ökumaður sem verður 17 ára á keppnistímabilinu má aka í unglingaflokki.

GREIN 2.2 ÖKUTÆKI
2.2.1

Hvert ökutæki má aðeins nota í einum flokk í hverri keppni.

2.2.2

Ekki er heimilt að skipta út ökutæki í keppni eftir að skoðun lýkur.

2.2.3

Ökutæki skal uppfylla allar kröfur þess flokks sem það er notað í.

2.2.4

Ökutæki skal ávallt vera hreint í keppni.

GREIN 3 KEPPNI
GREIN 3.1 ALMENNT
3.1.1

Á meðan á keppni stendur má einungis ökumaður vera í ökutækinu.

3.1.3

Keppandi, ökumaður eða liðstjóri skal alltaf vera við ökutæki meðan keppni fer fram.

3.1.4

Keppandi má hafa tvo aðstoðarmenn inni á pittsvæði og ber á þeim fulla ábyrgð.

3.1.4.a

Keppnishaldara er heimilt að leyfa fleiri aðstoðarmenn á þeim forsendum sem hann ákveður.

GREIN 3.2 BRAUTIN
3.2.1

Braut í keppni skal vera malbikuð með hægri og vinstri beygjum.

3.2.2

Brautarlengd skal vera að lágmarki 500 metrar og breidd brautar skal vera að lágmarki 5 metrar.

GREIN 3.3 PITTURINN
3.3.1

Afmarka skal svæði fyrir pitt þar sem ökutæki skulu vera á milli þess sem þau keppa.

3.3.2

Pittsvæðið skal vera vel merkt og staðsett þannig að frá því sé auðvelt að komast á og af brautinni.

3.3.3

Inn- og útkeyrsla af pittsvæði skal merkt með skýrum hætti.

3.3.4

Pittur skal vera það stór að þar sé pláss fyrir öll ökutæki, alla keppendur, ökumenn, þjónustuliða, brautarstarfsmenn, gesti o.s.frv.

3.3.5

Innan pittsins skal afmarka einn reit fyrir hvert ökutæki og þjónustulið þess sem það hefur til afnota.

3.3.5.a

Ökumaður skal aka beint í og úr sínu afmarkaða svæði í pittinum og forðast að koma í svæði annarra ökutækja en síns eigin.

3.3.6

Dekkjahitun og spól er stranglega bannað á pittsvæði.

3.3.7

Á pittsvæði er 5 km/klst hámarkshraði og skal aka þar með fyllstu gát.

GREIN 3.4 SKOÐUN
3.4.1

Skoðun skal fara fram áður en keppni hefst.

3.4.1.a

Ökumaður skal vera við ökutæki sitt meðan skoðun fer fram.

3.4.2

Við skoðun skal ökumaður vera í keppnisgalla og með allan persónulegan öryggisbúnað með sér.

3.4.3

Eftirfarandi verður athugað við skoðun:

3.4.3.a

Öryggisbúnaður ökumanns (hjálmur, kragi, galli, rifbeinahlíf, skór og hanskar).

3.4.3.b

Almennt ástand ökutækis.

3.4.3.c

Fótstig, bremsur, hjól, hjólbarðar, stýrisbúnaður, sæti, plöst og bensíntankur.

3.4.3.d

Mótor, mótorfestingar, vatnskassi og púst.

3.4.3.e

Númer og númeraplötur.

3.4.3.f

Þyngingar og festingar þeirra.

3.4.3.g

Þyngd ökutækis og ökumanns skal staðfest með vigtun.

3.4.4

Standist búnaður ökumanns og ökutækis ekki skoðun má vísa úr keppni án fyrirvara.

GREIN 4 KEPPNISFYRIRKOMULAG ÍSLANDSMÓTS
GREIN 4.1 ÆFING
4.1.1

Akstur hefst með æfingu:

4.1.1.a

Æfing skal standa í 50 mínútur.

4.1.1.b

Allir ökumenn skulu taka þátt í æfingu.

4.1.2

Keppnisstjóri getur veitt undanþágu frá æfingum.

GREIN 4.2 TÍMATAKA
4.2.1

Tímataka hefst að lokinni æfingu.

4.2.1.a

Tímataka skal standa í 20 mínútur.

GREIN 4.3 UPPRÖÐUN
4.3.1

Uppröðun á ráslínu í keppnislotum:

4.3.1.a

Í fyrstu keppnislotu skulu tímar úr tímatöku ráða valrétti á rásstöðu í braut.

4.3.1.b

Í annarri keppnislotu ræðst valréttur á rásstöðu í braut af lokaúrslitum í fyrstu keppnislotu.

4.3.1.c

Í þriðju keppnislotu ræðst valréttur á rásstöðu í braut af lokaúrslitum í annarri keppnislotu.

4.3.2

Þegar raðað er upp á ráslínu skulu ökumenn mæta á sína rásstöðu.

4.3.2.a

Mæti ökumaður seint á sína rásstöðu hefur hann 30 sekúndur til að koma sér þangað eftir að síðasti ökumaður hefur stillt upp.

4.3.2.b

Mæti ökumaður ekki innan tímamarka skal hann ræsa úr pittinum þegar allir aðrir ökumenn hafa farið framhjá.

4.3.3

Ökumenn sem ekki taka þátt í tímatöku ræsa aftast í fyrstu keppnislotu og ræður keppnisstjóri rásstöðu þeirra.

GREIN 4.4 RÆSING
4.4.1

Ræsir skal vera staðsettur þannig að allir ökumenn sjái hann greinilega.

4.4.2

Keppnisstjóri ákveður fjölda upphitunarhringja.

4.4.2.a

Upphitunarhringir hefjast þegar ræsir lyftir grænu flaggi.

4.4.2.b

Ekinn skal a.m.k. einn upphitunarhringur fyrir ræsingu.

4.4.3

Ræsir skal ræsa ökutæki strax eftir upphitunarhringi með grænu flaggi.

4.4.3.a

Ræsing á ferð er framkvæmd án undanfara frá ráspól og er ökutækjum ætlað að aka fyrir eigin vélarafli að ráslínu í réttri rásröð.

4.4.3.b

Ef ökumenn eru ekki á hæfilegum hraða og þétting ekki hæfileg milli ökumanna getur ræsir seinkað ræsingu þar til því er náð.

GREIN 4.5 KEPPNISLOTUR
4.5.1

Eknar skulu þrjár 10 mínútna keppnislotur.

4.5.2

Keppnislota hefst þegar ræsir fellir græna flaggið.

4.5.3

Keppnislotu er lokið þegar allir ökumenn hafa verið flaggaðir út með köflóttu flaggi.

4.5.4

Ökumaður telst hafa lokið keppnislotu þegar hann ekur yfir marklínu og er flaggaður út með köflóttu flaggi.

4.5.5

Ef ökumaður stoppar í pitt vegna bilana en heldur síðan áfram og klárar keppnislotu þarf hann að hafa ekið 70% þeirra hringja sem sigurvegari ók til að fá stig fyrir keppnislotuna.

4.5.6

Einungis þeir ökumenn sem ljúka keppnislotu fá stig.

GREIN 4.6 ÚRSLIT
4.6.1

Stig eru gefin fyrir tíu fyrstu sæti skv. lokaúrslitum í hverri keppnislotu samkvæmt eftirfarandi töflu:

  1. sæti : 12 stig
  2. sæti : 10 stig
  3. sæti : 8 stig
  4. sæti : 7 stig
  5. sæti : 6 stig
  6. sæti : 5 stig
  7. sæti : 4 stig
  8. sæti : 3 stig
  9. sæti : 2 stig
  10. sæti : 1 stig
4.6.2

Lokaúrslit skulu birt eftir hverja keppnislotu.

4.6.3

Sigurvegari keppni telst sá vera sem hlotið hefur flest stig samanlagt úr öllum keppnislotunum.

4.6.4

Ef tveir eða fleiri ökumenn eru jafnir að stigum eftir allar keppnisloturnar, telst sá sigurvegari sem stóð sig best í síðustu keppnislotu keppninnar.

GREIN 4.7 STIG TIL ÍSLANDSMEISTARA
4.7.1

ökumaður sem hlotið hefur flest stig samanlagt úr öllum keppnum til íslandsmeistara telst Íslandsmeistari en með neðangreindu fráviki.

4.7.1.a

Séu þrjár keppnir eða fleiri telja allar keppnislotur til stiga nema ein.

4.7.2

Ef tveir eða fleiri eru með jafnmörg stig í efsta sæti telst sá íslandsmeistari:

4.7.2.a

sem oftar hefur verið í fyrsta sæti lokaúrslitum keppni, ef enn er jafnt þá sá sem oftar hefur verið í öðru sæti í lokaúrslitum keppni, ef enn er jafnt þá sá sem oftar hefur verið í þriðja sæti í lokaúrslitum keppni o.s.frv.

4.7.2.b

sé enn er jafnt telst sá íslandsmeistari sem hefur unnið fleiri keppnislotur í móti.

4.7.2.c

sé enn jafnt telst sá íslandsmeistari sem hefur oftar verið ofar í tímatökum í keppni.

GREIN 5 ÖRYGGISMÁL
GREIN 5.1 PERSÓNULEGUR BÚNAÐUR ÖKUMANNA
5.1.1

Ökumenn skulu vera í viðurkenndum keppnisgalla.

5.1.1.a

Ekki má prenta auglýsingar beint á keppnisgallann eða sauma í hann nema af framleiðanda hans.

5.1.2

Ökumenn skulu jafnframt nota viðurkennda hanska, hálskraga, skó og rifbeinshlíf.

5.1.3

Fyrir öll hlífðarföt gildir að þau skulu formuð og sniðin þannig að þau skýli vel öllum líkamanum þar á meðal hnakka, ristum og úlnliðum.

5.1.4

Hjálmar skulu uppfylla staðla samkvæmt reglum AKÍS / CIK-FIA

5.1.5

Myndavélar eða annar aukabúnaður festur á hjálm eða ökumann á annan hátt er bannaður.

GREIN 5.2 BRAUTARVERÐIR
5.2.1

Brautarverðir skulu staðsettir við alla brautina þannig að hver brautarvörður sjái til næsta brautarvarðar á báðar hendur sér öllum stundum.

5.2.2

Hver brautarvörður skal hafa hjá sér:

5.2.2.a

slökkvitæki nema þau séu staðsett í sérstökum öryggisbíl(um);

5.2.2.b

eitt af hverju flaggi sem reglur kveða á um að geti verið notað.

5.2.3

Brautarvörður skal nota flögg eins og kveðið er á um í reglum.

GREIN 5.3 ÖRYGGISBÚNAÐUR VIÐ BRAUTINA
5.3.1

Slökkvitæki skulu staðsett við allar flaggarastöðvar eða í öryggisbifreið(um) við brautina þannig að tryggt sé að viðbragð við eldi sé skjótt.

GREIN 6 KEPPNISFLOKKAR
GREIN 6.1 REGLUR SEM GILDA FYRIR ALLA FLOKKA
6.1.1

Keppnisstjórn er heimilt að færa keppendur um flokk fram að ræsingu fyrstu ferðar í tímatöku.

6.1.2

Reglur fyrir alla mótora eru Rotax MAX Challenge Technical Regulation.

6.1.3

Grind ökutækis: Gerð fyrir 125cc mótora og fjöldaframleidd af CIK-FIA viðurkenndum framleiðanda.

6.1.4

Afturstuðari skal vera að lágmarki 120 sentimetrar á breidd.

6.1.5

Hámarks breidd ökutækis er 140 sentimetrar.

6.1.6

Plöst skulu vera óbrotin og tryggilega fest.

6.1.7

Keppnisnúmer skal vera staðsett að framan, aftan og á báðum hliðum.

6.1.8

Bremsur skulu einungis vera á afturöxli.

6.1.9

Auka þyngingar skulu festar tryggilega.

6.1.10

Dekk skulu vera af VEGA gerð.

6.1.10.a

Slikkar skulu vera af gerðinni: FH, SL3 - SL Nordam, SL4 eða SL6

6.1.10.b

Regndekk skulu vera af gerðinni: W2 eða W5.

6.1.10.c

Notkun efna sem auka mýkt og grip dekkjanna er bönnuð.

6.1.11

Talstöðvasamband við ökumann er bannað.

GREIN 6.2 ROTAX MAX FLOKKUR
6.2.1

Lágmarksþyngd ökutækis og ökumanns á ráslínu er 165 kílógrömm.

GREIN 6.3 ROTAX MAX 177 FLOKKUR
6.3.1

Lágmarksþyngd ökutækis og ökumanns á ráslínu er 177 kílógrömm.

GREIN 6.4 ROTAX MAX EVO FLOKKUR
6.4.1

Lágmarksþyngd ökutækis og ökumanns á ráslínu er 165 kílógrömm.

GREIN 6.5 UNGLINGAFLOKKUR
6.5.1

Unglingaflokk er skipt eftir aldri:

6.5.1.a

10 - 11 ára á keppnistímabilinu

6.5.1.b

12 - 13 ára á keppnistímabilinu

6.5.1.c

14 - 15 ára á keppnistímabilinu

6.5.1.d

16 - 17 ára á keppnistímabilinu